news

Ævintýraferð

12 maí 2020

Fimmtudaginn 7. maí fóru börnin á Spilli í ævintýraferð. Við fórum upp í hlíðina fyrir ofan Orkubúshúsið á Hlíðarveginum og fórum svo göngustíginn tilbaka. Þegar heim var komið, gerðum við ævintýrasögu úr ferðinni.

Ævintýrasaga Spillis.

Einu sinni voru ævintýrakrakkar í ævintýraskóla. Það var leikskólinn Hellisskútar.Í honum voru ævintýrabörn sem fóru í ævintýraferð.Þau hófu ferðina á því að klífa eldfjall. Á eldfjallinu var risastór gígur sem ævintýrabörnin voru næstum því dottin ofan í. En þar sem þau eru svo ótrúlega klár ævintýrabörn, náðu þau að bjarga sér á síðustu stundu .Þegar upp var komið hófst ægileg ganga eftir eldfjallastígnum. Þar mættu ævintýrabörnin hinum ýmsu hættum.

Allt í einu gengu þau fram á ísjaka. Þetta var risastór ísjaki og á leiðinni yfir heyrðu þau í ísbjörnum. Úff....nú urðu ævintýrabörnin örlítið smeyk. Hvað ef ísbirnirnir myndu nú koma og éta þau??? En yfir ísjakann komust allir heilu og höldnu. Þá var kominn tími til að halda niður af eldfjallastígnum en úfff.....æ æ æ .... allt í einu sáu þau 2 stóra ísbirni sem lágu og voru að njósna um ævintýrabörnin og þeir voru með rosaleg horn. Þá tóku ævintýrabörnin þá ákvörðun að læðast hægt og rólega framhjá þeim. En allt í einu stóðu ísbirnirnir upp og nú voru allir vissir um að þeir myndu æða af stað og éta þau. En ævintýrabörnin voru klárari og sluppu frá þeim með því að breyta sér líka í ísbirni.

Nú héldu allir áfram og komu þá að risastóru fljóti sem í voru krókódílar. Tveir krókódílar. Nú voru þau enn og aftur í vanda. Hvernig áttu þau nú að komast yfir án þess að verða étin af krókódílum?Þá fékk ævintýrabarna vörðurinn hugmynd.... hvað ef þau myndu bara stökkva yfir krókódílafljótið?? Þetta fannst ævintýrabörnunum mjög góð hugmynd. Þau tóku tilhlaup og hvert af örðu stukku þau yfir fljótið. Þó svo krókódílarnir væru með opinn kjaftinn fyrir neðan þau í fljótinu, náðu þeir ekki stökkvandi ævintýrabörnum og gátu því ekki étið þau.

Því næst héldu börnin yfir víðan völl, þar sem þau sáu stóran snjókarl og sultu sem þau þurftu að forðast.
En hvað var þetta?? Framundan var eitthvað mjög skrýtið. Það virtist vera mjúkt og með fullt af holum í. Þegar ævintýrabörnin komu nær sáu þau að þetta var RISAOSTUR. Það leit út fyrir að Risaosturinn væri við það að springa. Þá fann eitt ævintýrabarnanna tappa sem það fór með og stakk í Risaostinn. Þar með var búið að stoppa þann möguleika að osturinn myndi springa. Allir læddust nú samt framhjá honum til öryggis.
En hvað var nú þetta?? Ó, nei!!!!! Þarna var þá komið stórt svart ljón!! Það var mjög grimmt og gretti sig. En þar sem ævintýrabörnin breyttu sér í steina, þá tók ljónið ekki eftir þeim og fór framhjá. Áfram héldu þau yfir víðan völl á leið í hellinn sinn. Þá tóku einhverjir eftir því að rétt hjá hellinum þeirra voru geimverur með geimverusprengjur sem þeir reyndu að festa á hellinn þeirra. Þau flýttu sér framhjá þeim og fóru inn í hellinn sinn. Þar inni beið tröllskessan með tilbúin mat fyrir þau. Það var fiskur. Soðinn fiskur. Ævintýrabörnunum fannst það ekki nógu spennandi og fannst þau eiga skilið pizzu eftir að hafa komist heim úr þessari svaðilför. Því tóku þau til þess ráðs að nota hugarorkuna sína og breyta fisknum í pizzu. Þau borðuðu síðan pizzuna með bestu lyst.

Köttur út‘í mýri, sett‘upp á sig stýri. Út‘er ævintýri.